Næsta árið hjá héraðspresti


Axel með skírnarbörnum

Axel með skírnarbörnum 2015

Ég er aftur farinn til prestsþjónustu í Selfossprestakalli eftir ákvörðun prófasts Suðurprófastsdæmis um að nýta héraðsprestsembættið að hálfu með þeim hætti. Sömuleiðis fær Skálholtsprestakall sem nemur fjórðungi af mér. Héraðsprestsembættinu er ráðstafað með þessum hætti til 1. júní 2019.
Ég þjónaði Selfossprestakalli frá ágúst 2012 til júlí 2015 eða í 36 mánuði. Annars bý ég Eystra-Geldingaholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem fyrr. Síðustu níu mánuð hef ég verið í námsleyfi sem reyndar fór svolítið forgörðum vegna vígslubiskupskosningarinnar í Skálholti sem tók lengri tíma en ætla mátti í upphafi.
Viðtalstímar -um frekari samtöl og viðtöl- hjá mér næsta árið eru milli 10 og 12 í síma 8561574 og netfangið er axel.arnason (hjá) kirkjan.is. Samtöl og frekari viðtöl eru því eftir samkomulagi og ég hef skrifstofuaðstöðu og móttökuaðstöðu í Selfosskirkju og reyndar heima.

Birt í Óflokkað | Færðu inn athugasemd

Hurð lokast og sett í lás

 

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar en oft horfum við svo lengi og með svo mikilli eftirsjá á lokuðu dyrnar að við sjáum ekki þær sem hafa opnast fyrir okkur.

Birt í Óflokkað | Færðu inn athugasemd

Á meðan beðið er – hvað hefur kynningin kostað?

Ég vildi birta hér kostnaðarliði sem hafa fallið til vegna kynningar í þessu síðara ferli sem kosning til vígslubiskups er og áður en úrslitin verða ljós.

180.000 kr – vegna kynningarbréfs til 933 kjörmanna, pappír, póstur og prentun,
200 km eknir,
ekkert aðkeypt.

Í fyrra skiptið féll til árið 2017:
80.000 kr vegna upptöku á kynningarfundi í Borgarfirði.
1.050 km eknir,
ekkert aðkeypt.

Beinn annar kostnaður hefur ekki fallið til, en lénið og hýsing þess er á eigin vegum.

Hengdur upp á snúru

Hengdur upp á snúru

Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd

Skiptir Skálholt máli?

En Skálholt, hvað er það í dag?

Ég held að Skálholt sé meira en staður og byggingar á landareign.
Skálholt er staður þar sem fólk tekur ákvörðun um að dýpka rætur sínar í Guði.
Skálholt er uppspretta næringar og endurnýjunnar.
Skálholt er vettvangur nýs upphafs hjá mörgu fólki.

Gengið til bæjar úr jarðgöngum í Skálholti

Skálholt er sérstakur staður. Á því er enginn vafi. En Skálholt er meira en staður. Ég held að Skálholt sem hugmynd eða hugmyndastraumur sé mikilvægara en byggingarnar á landareigninni.

Um Péturskirkjuna í Skálholti segir í Hugurvöku „að réttu kallast hún andleg móðir allra annarra vígðra húsa á Íslandi.“ Táknræn merking þess, er ímynd þeirrar veraldar, sem menn byggja og blessun út til allra manna, hvar sem þeir eru staddir á hnettinum -urbi et orbi.

Þannig er Skálholt nú sem fyrr, hornsteinn kristninnar á Íslandi er bindur veröld manna við veröld æðri máttarvalda. Þetta móðurhlutverk er erfðarhlutur hennar. Þennan erðarhluta ber að varðveita og sjá til þess að þar hljóðni aldrei bænahald og helgur söngur.

Um miðbik síðustu aldar áttuðu menn sig á ný á þessu hugmyndfræðilega hlutverki. Án þeirra vonar og væntinga hefði Skálholt vart risið á ný. Og enn hafa menn væntingar til Skálholts.

Gamalt til að móta nýtt

Ég held að málum sé háttað þannig næstu misserin að frekari fjárveitingar verði ekki til Skálholts. Skálholt þarf því að finna fjármuni sjálft, til að reka sig og byggja sig upp. Staðurinn og starfsemin þar hefur verið fjársvelt árum og áratugum saman. En fjársveltur hrörnar hann enn frekar. Skálholt verður alltaf kostnaðarsamt í rekstri og viðhaldi. En staðurinn gæti líka gefið miklar tekjur og þannig orðið sjálfbær rekstarlega séð. Þess vegna þarf að afla staðnum tekna. Það mætti td. finna hóp af fólki sem vill vera sem verðir Skálholts með mánaðarlegu framlagi.

Skólavarðan gamla í Skálholti ætti að vera til að brýna okkur í að vera lifandi, færanleg og endurmótanleg, til að glíma við breytingar á samfélagi og fjárhag.

Fáir staðir á landinu geyma jafn ríka sögu og Skálholt. Skálholt er í alfaraleið tugþúsunda á hverju ári og Skálholt getur verið okkur einstak tækifæri til mótun hugarfars landsmanna og ferðamannsins. Skálholtsjörðin, þetta mikla land, dýrmætt vistkerfi, fuglalíf, kyrrðin, áin, útsýnið og fegurð tala við verund mannsins og nærir sálina. Og svo Guðshúsið sjálft, sem skjól og vörn þegar válynd veður skella á heiðum og fjöllum.

Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd

Kvöldfundur og næstu kvöld

Samtalsfundur var á vefslóðinni á https://meet.jit.si/axelnjardvik í kvöld. Hann var skemmtilegur og vel heppnaður. Frá laugardagskvöldi og fram á miðvikudagskvöld er opinn skjáfundur á þessari vefslóð. Verið velkomin

Tesa á Hólahátíð 2017

Tesa á Hólahátíð 2017

Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd

Séð til Sigþrúðar

Ég má til með að benda ykkur á hinn helminginn af mér sem þið kannski fæst þekkið. Ég hef verið spurður hvort Sigþrúður Jónsdóttir myndi flytja úr Geldingaholti í Skálholt. Sumir hafa svarað því fyrir okkur með nei (-tromp útspilinu) en alla vega hefur hún mikla þekkingu og kunnáttu til að tengja saman trú og náttúru, sem lengi hefur vantað í Skálholti. Auk þess þekkir hún Skálholt vel. Hún hefur gengið um  Skálholtsjörðina og dvalið margsinnis á kyrrðardögum, sótt ýmsa atburði og helgihald.
Rennið að 29:40 og heyrið hvernig hún flytur mál sitt á þremur mínútum.
http://www.ruv.is/sjonvarp/horfa/natturupostulinn/24870?ep=7d5n31

Skemmdir græddar

Skemmdir græddar

Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd

Spurt fyrir vestan

Prófastur Vestfjarðarprófastsdæmis sr. Magnús Erlingsson lagði fram spurningar til frambjóðenda í vígslubiskupskjöri 2018. Svör mín er þessi og vonandi glæða þau áhuga kjörmanna á að taka þátt í kjörinu.

1. Hvað finnst þér um sameiningu sókna? Finnst þér að litlar sóknir með færri en 50 manns ættu að sameinast einhverri nágrannasókn?
2. Hvað finnst þér um sameiningu prestakalla? Heldur þú að það yrði til bóta að sameina prestaköll á hverju samstarfssvæði?

Í stað þess að svara strax þessum fjórum spurningum í tveimur liðum sem lagðar eru fram, gæti verið skynsamlegast að spyrja: Fyrir hvað stendur kirkjan og hver er grunnur hennar? Svarið við þessari spurningu er Jesús og fólk.

Síðan er það að skipulagsatriði hvernig þessum þáttum er háttað sem spurt var um í fyrstu og annarri spurningunni. Kirkuþing hefur þegar svarað þessum spurningum með jái.
Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað. En hvað þarf sókn til að geta sinnt sínum grunnþörfum. Ég held að hún þurfi til þess fólk. Kirkjuþing hefur sett töluna 50 manns. Frumskylda sóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika. Og hvað þarf marga svo það gangi eftir?
Í Vestfjarðarprófastsdæmi eru aðstæður þannig að þar eru 34 sóknir. 21 þeirra er með færri en 50 manns en það er sú lágmarkstala sem Kirkjuþing sættist á. Og hér þyrfti að tala varlega því þessar sóknir fara með 13 atkvæði af þeim 59 kjörmönnum sem eru í Vestfjarðarprófastsdæmi. Og 11 þeirra eru með færri en 10 manns en 6 atkvæði. Auk þess er það þannig að laun presta reiknast út frá fjölda sókna með fleiri en 50 sóknarbörn. Þannig að jáið, sem tekið er undir og gefið er fyrir sameiningu sókna, gengur gegn hagsmunum presta og kjörmanna.
Starfshættir og skipulag þjónustu presta og kirkjustarfið þarf að breytast vegna þess að þjóðfélagið breytist. Skiplag sókna og prestakalla er frá horfnu samfélagi og því þarf að breyta til að starfshættir sókna og prestakalla mæti 21. öldinni. Framtíðin ræðst af því að börnin sem fæðast fái að kynnast Jesú og að tryggja þarf að fólkið haldi áfram að vera í íslensku þjóðkirkjunni.

Notkun og nútíminn

Notkun og nútíminn

3. Finnst þér að kirkjan ætti að láta til sín taka í einhverjum þjóðfélagsmálum og þá hverjum?

Það hlutverk kirkjunnar og kristinna manna þar með, að verða það umbreytandi afl sem Jesús var sinni tíð. Jesús var að boða allt annars konar samfélag en 1. öldin lifði og þekkti. Þau sem hafa áttað sig á þessum þætti, hafa umbreytt veröldinni – á öllum öldum.
Jesús bauð fólkinu annars konar líf, annars konar hátt – eiginlega algerlega nýja sköpun, sem mótast af fyrirgefningu, fögnuði og friði hér og nú, þá og þegar. Fjallræða Jesú ber þennan skilning með sér. Jesús kallaði á fólkið til að fylgja sér og breytast í það að verða ljós heimsins. Og þetta er glíma allra kristinna manna og stundum snúið í heimi hagsmuna og auðs.
Kirkjan er kallaður líkami Krists og við limir hans. Þannig er dregin upp mynd af lifandi samfélagi sem er heiminum ljós og líf, sem lifir og starfar – og umbreytir.

Hagsmunir framtíðar

Hagsmunir framtíðar

4. Þarf vígslubiskup nokkuð að búa í Skálholti? Er hann ekki betur staðsettur í Reykjavík?

Vígslubiskup fór að búa í Skálholti í tíð sr. Jónasar Gíslasonar um miðjan maí 1992 er hann lét gamlan draum sinn rætast að gera Skálholt aftur að biskupssetri. Fyrir Skálholt þá þarf vígslubiskup að sitja í Skálholti og kirkjuþing er sama sinnis. Hinu er ekki að neita að á margan hátt er illa farið með starfsþrekið að fara yfir 100 ferðir til Reykjavíkur á ári.

Leyfið börnunum...

Leyfið börnunum…

5. Hvernig getur kirkjan bætt ímynd sína gagnvart almenningi á Íslandi?

Margt ung fólk sem hefur sagt sig úr kirkjunni hefur sagt mér að kirkjan sé ekki það leiðandi afl í samfélaginu sem þau kalla eftir. Þau sjá að samband ríkis og kirkju sé dragbítur á þá leiðandi forystu, sem kirkjan ætti að vera, í að gera heiminn betri og réttlátari. Hugmyndir þess um aðskilnað ríki og kirkju eru í grunninn krafa um að kirkjan breyti starfsháttum sínum og að hún neyðist til þess að lifa og starfa í anda Jesú Krists. Í raun og veru eru þetta jákvæðir þættir ef okkur vinnst gæfa til að vaxa upp úr þessum vanda. Það er jákvætt sem ungt fólk hefur sagt mér, því það er greinilegt að æði margt af þessu fólki, gerir afar ríkar kröfur til presta og starfsmanna kirkjunnar, að þeir skari fram úr hvað fyrirmyndir varðar um þau gildi sem boðskapurinn býður. Það er mikilvæt að við áttum okkur betur á sýn yngri kynslóða sem lætur sig það varða í raun hvernig kirkjan starfar. Vígslubiskupsembættið er eitt af þessu sem birtir þessa stofnun út á við sem ungt fólk tengir trúfélagsaðild sína við. Það er því brýnt að við náum að snúa þessari þróun við með virkari sjálfsgagnrýni og markvissu þróunarstarfi eins og ungt fólk virðist vera að kalla eftir á stjórnstigum kirkjunnar. Unga fólkið er ekki að tala um kirkjuna heima heldur fyrst og fremst stofnunina í þessu samhengi því margt ungt fólk veit að safnaðarstarf hefur aldrei verið fjölbreyttara og fjölsóttara en nú á ýmsum stöðum á landinu.

Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd

Um hvað er verið að kjósa?

Ég hef orðað það svo að í  komandi póstkosningu (sem hefst 9. mars og lýkur 21. mars nk.) til vígslubiskups í Skálholti er verið að kjósa þann sem á að styðja biskup Íslands til að hafa tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Með öðrum orðum þann einstakling sem á að tryggja tengslin við grasrót samfélagsins svo þau glatist ekki. Að skynjun og skilningur við þá djúpu strauma í samfélaginu tapist ekki í stofnun sem á sér langa sögu.

Þann sem þarf að höfða til yngra fólksins og til komandi kynslóða og sem af réttsýni vill breyta heiminum. Til þeirra sem sjá kirkjuna sem sökkvandi skip og finnst þau ekki eiga samleið með kirkjunni. Þann sem mun leggja árar sínar djúpt í þann sístækkandi straum úrsagna og fækkunar fólks í þjóðkirkjunni, fólksins sem leggur að jöfnu trú og kirkju og kveður annað á kostnað hins. Það er okkur nauðsynlegt að snúa við þeirri stefnu sem birtist í að ungt fólk lætur ekki skíra börn sín né að það sjái eitthvert gagn í kirkjunni sem samferðarmann í mótun sinni og lífi.

Þann sem getur beint fólki og söfnuðum til að upplifa, endurnýjast og sjá nýtt varðandi trú á Jesú og þátt kirkjunnar í mótun sálar og í mótun veruleika samfélagsins. Fjöldi fólks er í andlegri leit og því þarf kirkjan að vera enn opnari faðmur en áður og reyna að laða fólk aftur að kirkjunni til Jesú. Það er verið að kjósa einstakling sem dregur kirkjuna, annars vegar þjóðkirkjuna sem á í vök að verjast og hins vegar söfnuðina, sem oft eru ánægðir með starfið og prestinn sinn, frá jaðrinum. Við þurfum að huga að hinum fallega keltneska arfi sem mótaði fyrstu kristni á Íslandi – þar er að finna þrótt endurnýjunar á okkar tíð.

Biskupshattur

Það er verið að kjósa einstakling til að búa og starfa í Skálholti í þeim anda sem býr á staðnum. Það er margt hægt að gera í Skálholti og samstillt átak okkar þarf, til að gera Skálholt að því sem, af djúpum rótum, mun næra og fæða kristni 21. aldar. En Skálholt er meira en hús. Skálholt er uppspretta næringar og endurnýjunar. Vettvangur nýs upphafs margra sem tekur ákvörðun um að dýpka enn meira rætur sínar í Guði. Því þarf að birta þessar hugmyndir, þá sögu og þá framtíð sem Skálholt elur af sér. Skálholt er táknræn merking þess og er ímynd þeirrar veraldar, sem við byggjum og blessum út til allra manna, hvar sem þeir eru staddir á hnettinum –urbi et orbi.

Ég mun tala fyrir þeim breytingum sem þurfa að verða í starfi kirkjunnar til að mæta kynslóðum færandi ferskan blæ úr boðskap Jesú. Sem vígslubiskup mun ég veita biskupi stuðning, lána skynsemi og í senn vera frumlegur, einlægur og vakandi.

Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd

Gleði talnanna

Mér fannst það ánægjulegt að fá fleiri atkvæði út úr vígslubiskupstilefningunni nú en síðast. Það er eins og að vindurinn sé farinn að blása öðru vísi nú en áður og ég held að hann á eigi eftir að blása meira.
Nú þarf að fara að hafa upp á kjörmönnum prestakallanna og kynna fyrir þeim það sem hvílir í mér. Nú eða vakir í mér.
Það var fróðlegt að veita því athygli hvernig hinir tveir kynntu sig á kynningarfundunum í september. Það má allt sjá á netinu. Það er líka umhugsunarefni hvernig fer í þessari umferð sem hefst 9. mars í póstkosningu og sjá hvort fleiri láta sig þetta kjör varða og eins það hvort atkvæðin leggjast á sveif með Urði, Verðandi eða Skuld.
 
Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd

Tilnefning til kjörs vígslubiskups í Skálholti 2. febrúar til 7. febrúar 2018

Enn á ný spyr ég þau sem fá að tilnefna til kjörs vígslubiskups í Skálholti hvort þau vilja tilnefna mig, prestinn Axel Árnason Njarðvík.

Síðast fékk ég 35 atkvæði sem dugði inn í fyrri umferð kosningarinnar, sem fór þannig að ég fékk 95 atkvæði.
Ég beitti mér ekki mikið og hafði mig ekki í frammi vegna þess að ég vildi að kjósendur leiddu hug sinn í bæn og reyndu þannig að kjósa með farsælum hætti. Ég lét engin orð falla um hina sem valið stóð um. Ég stuðlaði ekki að neinu, til að véla fólk til fylgis.
95 atkvæðin minntu mig þegar á siðbót Lúthers. Ef ég fæ nægilegar tilnefningar í þetta skiptið, þá þarf ég á hjálp að halda til að finna fleiri atkvæði, til að verða valinn til að verða vígslubiskup.

Og af hverju mig? Því taldi ég erfitt að svara fyrr svo vel væri. En framgöngu á kynningarfundum er hægt að rifja upp og skoða hér á vefsíðunni.
Ég reyndi að vera hreinn og klár í því sem sagt var og ekki endilega það sem ljúft lét í eyra. Ég birti skoðanir og sjónarmið. Ég talaði til framtíðar, um ógnir og tækifæri sem biðju þjóðkirkjunnar.
Enn finnst mér Drottinn kalla á mig til að sækja í Skálholt. Mér fannst því merkilegt að heyra patríarkan Bartholomew 1 í Biskupsgarði föstudagskvöldið 13. október 2017 segja við mig, eftir að ég settist óvart andspænis honum og ræðismaður Grikklands hafði kynnti mig- þú verður næsti biskup í Skálholti- ég sé það í augunum þínu. Og svo bauð hann mér með sér heim í Skálholt laugardaginn eftir á sama tíma og talin voru atkvæði. Síðar þennan sama dag leit ekki beint út fyrir að skynjun patriarkans gengi eftir.

Það var einnig einkennileg atburðarrás að á sunnudeginum 14. október 2017 fékk ég boð um að ég rynni inn á Kirkjuþing og tók sæti í löggjafarnefnd.

Þó held ég að forsjónin hafi fastast tekið í taumana er ljóst var að endurtaka þurfti allt ferlið. Því er tengingunum nú aftur kastað.

Viltu hjálpa mér að komast í Skálholt?
Viltu hjálpa mér að hafa samband við kjörmenn og tala máli mínu?
Viltu koma, .. vér skulum endurreisa múra Jerúsalem, … -Neh. 2. 17.

Birt í Vígslubiskupskjör | Færðu inn athugasemd