Um hvað er verið að kjósa?

Ég hef orðað það svo að í  komandi póstkosningu (sem hefst 9. mars og lýkur 21. mars nk.) til vígslubiskups í Skálholti er verið að kjósa þann sem á að styðja biskup Íslands til að hafa tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Með öðrum orðum þann einstakling sem á að tryggja tengslin við grasrót samfélagsins svo þau glatist ekki. Að skynjun og skilningur við þá djúpu strauma í samfélaginu tapist ekki í stofnun sem á sér langa sögu.

Þann sem þarf að höfða til yngra fólksins og til komandi kynslóða og sem af réttsýni vill breyta heiminum. Til þeirra sem sjá kirkjuna sem sökkvandi skip og finnst þau ekki eiga samleið með kirkjunni. Þann sem mun leggja árar sínar djúpt í þann sístækkandi straum úrsagna og fækkunar fólks í þjóðkirkjunni, fólksins sem leggur að jöfnu trú og kirkju og kveður annað á kostnað hins. Það er okkur nauðsynlegt að snúa við þeirri stefnu sem birtist í að ungt fólk lætur ekki skíra börn sín né að það sjái eitthvert gagn í kirkjunni sem samferðarmann í mótun sinni og lífi.

Þann sem getur beint fólki og söfnuðum til að upplifa, endurnýjast og sjá nýtt varðandi trú á Jesú og þátt kirkjunnar í mótun sálar og í mótun veruleika samfélagsins. Fjöldi fólks er í andlegri leit og því þarf kirkjan að vera enn opnari faðmur en áður og reyna að laða fólk aftur að kirkjunni til Jesú. Það er verið að kjósa einstakling sem dregur kirkjuna, annars vegar þjóðkirkjuna sem á í vök að verjast og hins vegar söfnuðina, sem oft eru ánægðir með starfið og prestinn sinn, frá jaðrinum. Við þurfum að huga að hinum fallega keltneska arfi sem mótaði fyrstu kristni á Íslandi – þar er að finna þrótt endurnýjunar á okkar tíð.

Biskupshattur

Það er verið að kjósa einstakling til að búa og starfa í Skálholti í þeim anda sem býr á staðnum. Það er margt hægt að gera í Skálholti og samstillt átak okkar þarf, til að gera Skálholt að því sem, af djúpum rótum, mun næra og fæða kristni 21. aldar. En Skálholt er meira en hús. Skálholt er uppspretta næringar og endurnýjunar. Vettvangur nýs upphafs margra sem tekur ákvörðun um að dýpka enn meira rætur sínar í Guði. Því þarf að birta þessar hugmyndir, þá sögu og þá framtíð sem Skálholt elur af sér. Skálholt er táknræn merking þess og er ímynd þeirrar veraldar, sem við byggjum og blessum út til allra manna, hvar sem þeir eru staddir á hnettinum –urbi et orbi.

Ég mun tala fyrir þeim breytingum sem þurfa að verða í starfi kirkjunnar til að mæta kynslóðum færandi ferskan blæ úr boðskap Jesú. Sem vígslubiskup mun ég veita biskupi stuðning, lána skynsemi og í senn vera frumlegur, einlægur og vakandi.

Þessi færsla var birt undir Vígslubiskupskjör. Bókamerkja beinan tengil.