Spurt fyrir vestan

Prófastur Vestfjarðarprófastsdæmis sr. Magnús Erlingsson lagði fram spurningar til frambjóðenda í vígslubiskupskjöri 2018. Svör mín er þessi og vonandi glæða þau áhuga kjörmanna á að taka þátt í kjörinu.

1. Hvað finnst þér um sameiningu sókna? Finnst þér að litlar sóknir með færri en 50 manns ættu að sameinast einhverri nágrannasókn?
2. Hvað finnst þér um sameiningu prestakalla? Heldur þú að það yrði til bóta að sameina prestaköll á hverju samstarfssvæði?

Í stað þess að svara strax þessum fjórum spurningum í tveimur liðum sem lagðar eru fram, gæti verið skynsamlegast að spyrja: Fyrir hvað stendur kirkjan og hver er grunnur hennar? Svarið við þessari spurningu er Jesús og fólk.

Síðan er það að skipulagsatriði hvernig þessum þáttum er háttað sem spurt var um í fyrstu og annarri spurningunni. Kirkuþing hefur þegar svarað þessum spurningum með jái.
Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað. En hvað þarf sókn til að geta sinnt sínum grunnþörfum. Ég held að hún þurfi til þess fólk. Kirkjuþing hefur sett töluna 50 manns. Frumskylda sóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika. Og hvað þarf marga svo það gangi eftir?
Í Vestfjarðarprófastsdæmi eru aðstæður þannig að þar eru 34 sóknir. 21 þeirra er með færri en 50 manns en það er sú lágmarkstala sem Kirkjuþing sættist á. Og hér þyrfti að tala varlega því þessar sóknir fara með 13 atkvæði af þeim 59 kjörmönnum sem eru í Vestfjarðarprófastsdæmi. Og 11 þeirra eru með færri en 10 manns en 6 atkvæði. Auk þess er það þannig að laun presta reiknast út frá fjölda sókna með fleiri en 50 sóknarbörn. Þannig að jáið, sem tekið er undir og gefið er fyrir sameiningu sókna, gengur gegn hagsmunum presta og kjörmanna.
Starfshættir og skipulag þjónustu presta og kirkjustarfið þarf að breytast vegna þess að þjóðfélagið breytist. Skiplag sókna og prestakalla er frá horfnu samfélagi og því þarf að breyta til að starfshættir sókna og prestakalla mæti 21. öldinni. Framtíðin ræðst af því að börnin sem fæðast fái að kynnast Jesú og að tryggja þarf að fólkið haldi áfram að vera í íslensku þjóðkirkjunni.

Notkun og nútíminn

Notkun og nútíminn

3. Finnst þér að kirkjan ætti að láta til sín taka í einhverjum þjóðfélagsmálum og þá hverjum?

Það hlutverk kirkjunnar og kristinna manna þar með, að verða það umbreytandi afl sem Jesús var sinni tíð. Jesús var að boða allt annars konar samfélag en 1. öldin lifði og þekkti. Þau sem hafa áttað sig á þessum þætti, hafa umbreytt veröldinni – á öllum öldum.
Jesús bauð fólkinu annars konar líf, annars konar hátt – eiginlega algerlega nýja sköpun, sem mótast af fyrirgefningu, fögnuði og friði hér og nú, þá og þegar. Fjallræða Jesú ber þennan skilning með sér. Jesús kallaði á fólkið til að fylgja sér og breytast í það að verða ljós heimsins. Og þetta er glíma allra kristinna manna og stundum snúið í heimi hagsmuna og auðs.
Kirkjan er kallaður líkami Krists og við limir hans. Þannig er dregin upp mynd af lifandi samfélagi sem er heiminum ljós og líf, sem lifir og starfar – og umbreytir.

Hagsmunir framtíðar

Hagsmunir framtíðar

4. Þarf vígslubiskup nokkuð að búa í Skálholti? Er hann ekki betur staðsettur í Reykjavík?

Vígslubiskup fór að búa í Skálholti í tíð sr. Jónasar Gíslasonar um miðjan maí 1992 er hann lét gamlan draum sinn rætast að gera Skálholt aftur að biskupssetri. Fyrir Skálholt þá þarf vígslubiskup að sitja í Skálholti og kirkjuþing er sama sinnis. Hinu er ekki að neita að á margan hátt er illa farið með starfsþrekið að fara yfir 100 ferðir til Reykjavíkur á ári.

Leyfið börnunum...

Leyfið börnunum…

5. Hvernig getur kirkjan bætt ímynd sína gagnvart almenningi á Íslandi?

Margt ung fólk sem hefur sagt sig úr kirkjunni hefur sagt mér að kirkjan sé ekki það leiðandi afl í samfélaginu sem þau kalla eftir. Þau sjá að samband ríkis og kirkju sé dragbítur á þá leiðandi forystu, sem kirkjan ætti að vera, í að gera heiminn betri og réttlátari. Hugmyndir þess um aðskilnað ríki og kirkju eru í grunninn krafa um að kirkjan breyti starfsháttum sínum og að hún neyðist til þess að lifa og starfa í anda Jesú Krists. Í raun og veru eru þetta jákvæðir þættir ef okkur vinnst gæfa til að vaxa upp úr þessum vanda. Það er jákvætt sem ungt fólk hefur sagt mér, því það er greinilegt að æði margt af þessu fólki, gerir afar ríkar kröfur til presta og starfsmanna kirkjunnar, að þeir skari fram úr hvað fyrirmyndir varðar um þau gildi sem boðskapurinn býður. Það er mikilvæt að við áttum okkur betur á sýn yngri kynslóða sem lætur sig það varða í raun hvernig kirkjan starfar. Vígslubiskupsembættið er eitt af þessu sem birtir þessa stofnun út á við sem ungt fólk tengir trúfélagsaðild sína við. Það er því brýnt að við náum að snúa þessari þróun við með virkari sjálfsgagnrýni og markvissu þróunarstarfi eins og ungt fólk virðist vera að kalla eftir á stjórnstigum kirkjunnar. Unga fólkið er ekki að tala um kirkjuna heima heldur fyrst og fremst stofnunina í þessu samhengi því margt ungt fólk veit að safnaðarstarf hefur aldrei verið fjölbreyttara og fjölsóttara en nú á ýmsum stöðum á landinu.

Þessi færsla var birt undir Vígslubiskupskjör. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *