Bréf til kjörmanna 2018

Bréfið er hér: AxelTilKjörmanna2018.3

Axel Árnason Njarðvík – til kjörs vígslubiskups í Skálholti 2018

Eystra-Geldingaholti, 1. mars 2018

Kæri kjörmaður,
Ég skrifa þetta bréf til þín vegna þess að ég er tilnefndur í vígslubiskupskjöri.
Ég vona að þú greinir hjá mér áhugaverðar hugmyndir og dirfsku í því sem ég hef birt og boðað.
Von mín er að ég eigi hljómgrunn hjá þér sem leiði til þess – að þú ákveður að kjósa mig sem næsta vígslubiskup í Skálholti.

 Á þér og öðrum kjörmönnum hvílir sú ábyrgð að hafa hagsmuni kirkjunnar og framtíð trúarinnar að leiðarljósi. Þú þarft sem kjörmaður að vega og meta okkur þrjá sem erum tilnefndir vegna þess að atkvæði þitt er veitt fyrir allt fólkið í þjóðkirkjunni sem ekki fær að kjósa. Atkvæði þitt vegur og við höfum saman tækifæri til að sækja fram og sýna myndugleika í því umboði sem Skálholt býður upp á.

Af hverju kýstu mig til þess að verða vígslubiskup í Skálholti?

Ég hvet þig til að biðja Guð um hjálp og um leiðsögn vegna þess að erindið sem á að rækja er ekki manns eigið, heldur fagnaðarerindið sjálft um Jesú. Ég vil að þessi góða hreyfing sem kirkjan er, verði okkar samtíð það sem Jesús var sinni samtíð – og æ síðan. Þannig tel ég mig beina athygli að hagsmunum kirkjunnar og lífi trúarinnar – en frá fortölum – hvort sem þær væru sannar eða ósannar og frá því sem léti vel í eyra og maður héldi að fólkið vilji heyra.

Ég ætla að reyna að hringja í sem flesta. Ef ég næ ekki að hringja í þig þá er þér velkomið að hringja í mig til glöggvunar í síma 898 2935 -hvenær sem er.

Næstu fimm árin með mér í embætti vígslubiskups í Skálholti

Mig langar á næstu fimm árum að leiða fram með þér, hvetja til og styðja, það sem íslenska þjóðkirkjan og Skálholt þarf á næstu árum. Og til að mæta því sem kemur handan sjóndeildarhringsins.

Ég bið þig um að treysta mér í embætti vígslubiskups.

Til þess þarf ég atkvæðið þitt...

Axel Árnason Njarðvík

__________________________________________

Sími 8982935 – axel.arnason@kirkjan.is

 

E.s. Hittu mig á netinu. Ég býð þér til fundar í gegnum internetið á vefslóðinni https://meet.jit.si/axelnjardvik frá 20:00 – 21:00, frá og með 8. mars til og með 14. mars.

 Heimasíðan mín www.axel.is geymir margt sem kemur að gagni fyrir ákvörðun þína.

Sjá bakhlið

Um hvað er verið að kjósa?

Þann sem á að styðja biskup Íslands til að hafa tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Með öðrum orðum þann einstakling sem á að tryggja tengslin við grasrót samfélagsins svo þau glatist ekki. Að skynjun og skilningur við þá djúpu strauma í samfélaginu tapist ekki í stofnun sem á sér langa sögu.

Þann sem þarf að höfða til yngra fólksins og til komandi kynslóða og sem af réttsýni vill breyta heiminum. Til þeirra sem sjá kirkjuna sem sökkvandi skip og finnst þau ekki eiga samleið með kirkjunni. Þann sem mun leggja árar sínar djúpt í þann sístækkandi straum úrsagna og fækkunar fólks í þjóðkirkjunni, fólksins sem leggur að jöfnu trú og kirkju og kveður annað á kostnað hins. Það er okkur nauðsynlegt að snúa við þeirri stefnu sem birtist í að ungt fólk lætur ekki skíra börn sín né að það sjái eitthvert gagn í kirkjunni sem samferðarmann í mótun sinni og lífi.

Þann sem getur beint fólki og söfnuðum til að upplifa, endurnýjast og sjá nýtt varðandi trú á Jesú og þátt kirkjunnar í mótun sálar og í mótun veruleika samfélagsins. Fjöldi fólks er í andlegri leit og því þarf kirkjan að vera enn opnari faðmur en áður og reyna að laða fólk aftur að kirkjunni til Jesú. Það er verið að kjósa einstakling sem dregur kirkjuna, annars vegar þjóðkirkjuna sem á í vök að verjast og hins vegar söfnuðina, sem oft eru ánægðir með starfið og prestinn sinn, frá jaðrinum. Við þurfum að huga að hinum fallega keltneska arfi sem mótaði fyrstu kristni á Íslandi – þar er að finna þrótt endurnýjunar á okkar tíð.

Það er verið að kjósa einstakling til að búa og starfa í Skálholti í þeim anda sem býr á staðnum. Það er margt hægt að gera í Skálholti og samstillt átak okkar þarf, til að gera Skálholt að því sem, af djúpum rótum, mun næra og fæða kristni 21. aldar. En Skálholt er meira en hús. Skálholt er uppspretta næringar og endurnýjunar. Vettvangur nýs upphafs margra sem tekur ákvörðun um að dýpka enn meira rætur sínar í Guði. Því þarf að birta þessar hugmyndir, þá sögu og þá framtíð sem Skálholt elur af sér. Skálholt er táknræn merking þess og er ímynd þeirrar veraldar, sem við byggjum og blessum út til allra manna, hvar sem þeir eru staddir á hnettinum –urbi et orbi.

Ég mun tala fyrir þeim breytingum sem þurfa að verða í starfi kirkjunnar til að mæta kynslóðum færandi ferskan blæ úr boðskap Jesú. Sem vígslubiskup mun ég veita biskupi stuðning, lána skynsemi og í senn vera frumlegur, einlægur og vakandi.

Meðmælendur

María Ellingsen, leikkona: „Axel Njarðvík vinur minn til margra ára er drengur góður og mikilhæfur í hlutverki sínu sem prestur og sálusorgari. Lotning hans fyrir Kristi er einlæg og djúp og hann miðlar boðskapi trúarinnar af einlægni og eldhug. Fyrir þá sem leita til hans er hann næmur hlustandi hvetjandi og hlýr. Og sem leiðtogi hefur hann hugsjón og brennandi áhuga á að hlú að og styrkja andlegt og trúarlegt líf á Íslandi.“

Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur: „Axel er réttsýnn, heill og heiðarlegur maður. Hann ber hag kirkju og kristni fyrir brjósti sér. Auðmýkt hjartans og einlægni trúarinnar eru samofin veru hans og framkomu allri. Axel hefur mikilvæga þekkingu á umhverfisfræðum og tölfræðilegum upplýsingatæknimálum er varða framtíðarsýn þjóðkirkjunnar. Ég vil sjá hann sem vígslubiskup í Skálholti.“

Jóhanna Sigurjónsdóttir, hæstaréttarlögmaður: Axel horfir til framtíðar kirkjunnar og býr yfir krafti, einlægni og eldmóð. Kirkjan þarf á ferskum vindi að halda og að nálgun hennar á menn og málefni sé í takt við nútímann. Ég er sannfærð um að Axel mun takast að færa kirkjuna nær fólkinu og ekki síst ungu kynslóðinni. Ég treysti Axel til að ljá Skálholti þá rödd sem myndi vekja áhuga fólks á að sækja staðinn heim til að fræðast, njóta og upplifa. Þannig einstakling þurfum við í Skálholt.“

Sindri Geir Óskarsson, guðfræðingur: Þegar ég var að byrja að falla fyrir vistguðfræði hlustaði ég á viðtal Ævars Kjartanssonar við Axel. Síðan þá hef ég haft miklar mætur á Axel þrátt fyrir að þekkja hann ekkert. Undanfarið höfum við starfað saman í umhverfisnefnd kirkjunnar og fer álit mitt bara vaxandi. Ég er á því að það þurfi biskup sem er óhræddur við að standa með náttúrunni og tala inn í vandamál samtímans. Ég vil gjarnan fá grænan biskup í Skálholt og hef trú á því að réttsýni Axels og umhyggja verði kirkjunni til blessunar.“

Björn Erlingsson, eðlisfræðingur: „Ég hef notið þess að eiga samstarf og samfélag við Axel vettvangi umhverfismála og pílagrímagöngunnar. ÉG tel að Axel hafi sýn á kirkjustarf og kristni sem sé þjóðkirkjunni til sóma og framdráttar. Ég tel að hann eigi svo sannarlega erindi í embætti vígslubiskups og íslenska þjóðkirkjan megi þakka fyrir að hafa svona öfluga fulltrúa í sinni framvarðarsveit.“