Skálholt næstu árin

En Skálholt, hvað er það í dag?

Ég held að Skálholt sé meira en staður og byggingar á landareign.
Skálholt er staður þar sem fólk tekur ákvörðun um að dýpka rætur sínar í Guði.
Skálholt er uppspretta næringar og endurnýjunnar.
Skálholt er vettvangur nýs upphafs hjá mörgu fólki.

Skálholt er sérstakur staður. Á því er enginn vafi. En Skálholt er meira en staður. Ég held að Skálholt sem hugmynd eða hugmyndastraumur sé mikilvægara en byggingarnar á landareigninni.

Um Péturskirkjuna í Skálholti segir í Hugurvöku „að réttu kallast hún andleg móðir allra annarra vígðra húsa á Íslandi.“ Táknræn merking þess, er ímynd þeirrar veraldar, sem menn byggja og blessun út til allra manna, hvar sem þeir eru staddir á hnettinum -urbi et orbi.

Þannig er Skálholt nú sem fyrr, hornsteinn kristninnar á Íslandi er bindur veröld manna við veröld æðri máttarvalda. Þetta móðurhlutverk er erfðarhlutur hennar. Þennan erðarhluta ber að varðveita og sjá til þess að þar hljóðni aldrei bænahald og helgur söngur.

Um miðbik síðustu aldar áttuðu menn sig á ný á þessu hugmyndfræðilega hlutverki. Án þeirra vonar og væntinga hefði Skálholt vart risið á ný. Og enn hafa menn væntingar til Skálholts.

Ég held að málum sé háttað þannig næstu misserin að frekari fjárveitingar verði ekki til Skálholts. Skálholt þarf því að finna fjármuni sjálft-afla tekna, til að reka sig og byggja sig upp. Staðurinn og starfsemin þar hefur verið fjársvelt árum og áratugum saman. En fjársveltur hrörnar hann enn frekar. Skálholt verður alltaf kostnaðarsamt í rekstri og viðhaldi. En staðurinn gæti líka gefið miklar tekjur og þannig orðið sjálfbær rekstarlega séð. Þess vegna þarf að afla staðnum tekna. Það mætti td. finna hóp af fólki sem vill vera sem verðir Skálholts með mánaðarlegu framlagi.

Skólavarðan gamla í Skálholti ætti að vera til að brýna okkur í að vera lifandi, færanleg og endurmótanleg, til að glíma við breytingar á samfélagi og fjárhag.

Fáir staðir á landinu geyma jafn ríka sögu og Skálholt. Skálholt er í alfaraleið tugþúsunda á hverju ári og Skálholt getur verið okkur einstak tækifæri til mótun hugarfars landsmanna og ferðamannsins. Skálholtsjörðin, þetta mikla land, dýrmætt vistkerfi, fuglalíf, kyrrðin, áin, útsýnið og fegurð tala við verund mannsins og nærir sálina. Og svo Guðshúsið sjálft, sem skjól og vörn þegar válynd verður skella á heiðum og fjöllum.