Bréf vegna tilnefningar

Viltu tilnefna mig, prestinn Axel Árnason Njarðvík, til kjörs vígslubiskups í Skálholti?

Og af hverju mig? Því er erfitt að svara svo vel sé, en kjarninn í svarinu er, að þú sjáir í mér það sem þetta embætti kallar eftir. Stóra verkefnið bíður hins vegar og það eru kjörnefndarfólkið í prestaköllunum.

Mér finnst Drottinn kalli á mig til að sækja í Skálholt. Dæmið er þannig uppsett að þið, sem tilnefnið og þau sem kjósa, ráða þessu. Það er snúið spil þegar mörg finnst kallað á sig en einn er útvalinn. Ég vil því biðja þig og öll hin og sér í lagi þau sem tilnefna til vígslubiskupskjörs, að biðja Guð um leiðsögn og hjálp í þessari tilnefningu og síðar vali. Biðja um kjark, kærleika og samfélag, þar sem ríkir hlýja og samúð.

Alla tíð og á öllum tímum hafa verið menn sem varað hafa við kosingabaráttu við kjör á prestum eða biskupum. Mannjöfuður konunga á varla við í þessu vegna þess að erindið sem á að rækja er ekki manns eigið heldur fagnaðarerindið sjálft. Eftir sem áður þarf að vega og meta menn. Þegar maður er á miðjum aldri er göngulag mótað. Maður hleypur ekki langt frá sjálfum sér og orðstír. Sem vígslubiskup verð ég ekkert betri eða verri, en „óhætt er vegna fyrirheitanna að treysta því að Guð heyrir bænir okkar er við biðjum þess að fá staðist á komandi tíð, hvernig sem nú frammistaðan var í því sem nú er að baki.“ Að baki eru rúm 26 ár í prestsembætti af þeim 56 árum sem runnið hafa.

Sjónarmið mín og hugmyndir hafa stundum þótt framandi en öðlast meðbyr og verið rétt þegar fram í sótti. Ég hef verið óhræddur í erfiðum málum og látið ýmsar hugmyndir verða að veruleika. Ég hef verið óhræddur við að efla hag annara jafnvel á minn eigin kostnað.

Prestar vita að ég hef staðið fyrir sjónarmiðum náttúruverndar. Stundin, 2. tbl. 2015 birtir viðtal við okkur hjónin um þá raun sem þátttaka í náttúruvernd kom okkur í, stöðu sem mótaðist af sköpunarguðfræði. Það er óumdeilanlegt að umhverfismál og náttúruvernd eru býnasta verkefni jarðarbúa. Hin eru jafnrétti, friður og bræðralag.

Sem vígslubiskup þá gengur maður inn í annað samhengi og aðra stöðu. Vígslubiskup starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Í umboði biskups Íslands og eftir þeirri kirkjulegu skipan sem segir í lögum, reglugerðum og starfsreglum veitir vígslubiskup andlega leiðsögn og tilsjón innan kirkjunnar í umdæmi sínu, eflir kirkjulíf, vísiterar og annast sáttaumleitanir. Hvernig þetta gengur eftir ræðst af samstarfi við biskup Íslands og umboði hans og þar með samstarfi við vígslubiskupinn á Hólum um hvert skal stefna í þessum efnum leiðsagnar, tilsjónar, eflingar og sáttaumleitana. Flest ef ekki öll sem hafa viljað fara í biskupsembætti hafa nefnt það að efla þurfi tilsjón embættis. Og prestarnir kalla eftir því nánast allir með tölu. En reynslan er sú að það verkefni dagar uppi fyrir öðrum verkefnum sem eru frekari á starfsþrekið. Ég myndi vilja sinna því sem mikilvægasta verkefninu af trúmennsku og undanbragðalaust.

En kirkjuskipan okkar er ekki biskupakirkja heldur embættismannakirkja. Okkur prestunum er falið það embætti í hendur að prédika fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum. Þar ætti að vera styrkur okkar prestanna að liggja og við ættum að eflast sem slíkir til að boða fagnaðarerindið skýrt í nútíma samfélagi og verða þannig til raunverulegrar hjálpar fyrir menn.

Við ættum öll, af öllum mætti og nýjum heildstæðum hætti að vinna að því, að prests og prédikunarembættið nýtist til þess að kirkjan og kirkjustarfið leiði til þess að fólkið láti sig það varða, að vera kristið fólk, sem tekur ákvörðun á þeirri lífssýn og láta íslenskt samfélag halda sér í grunni sem kristið samfélag.

Og hér gæti verið við ramman reip að draga.

Við þurfum að verða stærri en sá vandi sem við erum að glíma við. Það eru að skella á okkur miklar breytingar í mennta- og atvinnumálum með aukinni gervigreind og samfélögin munu breytast mikið og hratt á næstu árum og áratugum. Börn og unglingar eru þegar farin að gjalda þess. Ég er viss um það að starf kirkjunnar muni skipta mjög miklu máli og sér í lagi í mótun hugar og hjarta fólksins. Íslenska þjóðkirkjan sem stofnun og trúfélag þarf að átta sig á þessu og því mikla hlutverki sem hún gæti sinnt. Því er brýnt að við finnum út hvað þarf til þess verkefnis og móta kirkjustarfið við nýjan heim. Það er minn skilningur að orðið þjóðkirkja í stjórnarskránni vísi til verkefnis sem verður þegar fólkið í landinu á samleið með hinni evangelísku lúthersku kirkju. Því þarf fólkið í landinu að finna sig vilja eiga samleið með þessari kirkju og boðskapnum sem hún flytur. Við þurfum að fara að starfa við annan veruleika og hafa þá getu til að horfast í augu við vandann, átta okkur á því af hverju fólkið fer eða kemur ekki. Og þetta snýr að prests og predíkunarembættinu. Þetta snýr að köllun kirkjunnar og sjálfum grundvellinum að tilgangsríku lífi.

Ný Skólavarða var reist í Reykjavík þegar starfssemin sem var í Skálholt var flutt til Reykjavíkur um 1800. Við þekkjum sögu Skálholts og það var ekki að ástæðulausu að staðurinn var fluttur til Reykjavíkur. Við þekkjum líka þær væntingar sem menn hafa borið til staðarins frá miðbiki síðustu aldar. Án þeirra hefði Skálholt vart risið á ný. Og enn hafa menn væntingar til Skálholts. Ég held að málum sé háttað þannig næstu misserinn að frekari fjárveitingar verði ekki til Skálholts. Skálholt þarf því að búa til sína peninga sjálft til að reka sig og byggja sig upp. Gott fólk hefur starfað þarna og búið gegnum tíðina en að minni hyggju hefur því verið sniðinn allt of þröngur stakkur. Staðurinn og starfsemin þar hefur verið fjársvelt árum og áratugum saman. En fjársveltur hrörnar hann enn frekar og verður að strandstað hugmynda. Skálholt verður alltaf kostnaðarsamt í rekstri og viðhaldi. En staðurinn gæti líka gefið miklar tekjur og þannig orðið sjálfbær rekstarlega séð. Þess vegna þarf að afla staðnum tekna.

Fáir staðir á landinu geyma jafn ríka sögu og Skálholt. Skálholt er í alfaraleið tugþúsundir heimsækna staðinn á hverju ári og Skálholt getur verið okkur einstak tækifæri til mótun hugarfars landsmanna og ferðamannsins. Skálholtsjörðin er tilvalin til upplifunar fíngerðrar náttúru, fuglalífs, kyrrðar og fegurðar. Að eiga þetta mikla land, náttúru og útsýnið, sem hægt að horfa yfir og næra sál. Skálholt gæti orðið einn af þessum stöðum þar sem fólk tekur ákvörðu um hugarfar og stefnu. Skálholt er ekki eyja og því er nærsveitarfólk þess lykillinn að samstarfi og framgangi staðar og svæðis. Skálholt hefur alltaf þurft á vinum að halda sem vilja staðnum vel. Vígslubiskupinn gerir fátt í Skálholti upp á sínar eigin spýtur. Hann ræður ekki starfsseminni einn en hann getur leitt samstarf.

Mig langar á næstu fimm árum að axla meiri ábyrgð og vera með í því að leiða fram, hvetja til og styðja, það sem íslenska þjóðkirkjan og Skálholt þarf á næstu árum. Og til að mæta því sem kemur. En til þess þarf ég tilnefningu sem fyrsta skref. Þó ég beri þá von í brjósti að verða kosinn, rétt eins þau hin sem stíga fram, þá bið ég þess að sá sem verður næsti víglsubiskup, verði til blessunar kristninni, fólkinu í landinu og Skálholti.

Komið, vér skulum endurreisa múra Jerúsalem, … -Neh. 2. 17

Axel Árnason Njarðvík
axel.arnason@kirkjan.is
sími 8982935